Ketti þarf að ormahreinsa reglulega, við fáum oft spurningar um af hverju þarf að ormahreinsa og hversu oft þarf að gera það? Hvernig veit ég hvort kötturinn minn sé með orma? Hvað á ég að gera ef kötturinn minn fær orma? Eru ormar smitandi? Við settum saman stutta grein um ormahreinsun katta og kettlinga.
Hér á landi eru spóluormar nokkuð algengir í köttum, en bandormar finnast stundum.
Spóluormaregg skiljast út með saur og smitast beint milli katta eða í gegnum millihýsla. Eggin klekjast út í meltingarvegi og lirfur komast í gegnum meltingarveginn og berast með blóðrás í önnur líffæri. Þær sem komast í lungu er hóstað upp í kok og komast þar niður í meltingarveginn þar sem þær verða kynþroska ormar og skilja út ný egg. Sumar komast í meltingarveg með blóðrásinni. Aðrar leggjast í dvala í líffærunum þar til kötturinn veikist eða læða verður kettlingafull. Þá fara lirfurnar aftur af stað með blóðrásinni og sýkja kettlingana í móðurkviði.
Almennt sýna einungis 25 % af smituðum köttum einkenni sem geta verið hósti, uppköst, niðurgangur, uppþemba og almenn vanþrif þ.e.a.s. þeir þrífast illa, mjög grannir þrátt fyrir að éta eðlilega.
Ef kötturinn þinn sýnir einhver ofangreindra einkenna ráðfærðu þig við dýralækni.
Skynsamlegt er að ormahreinsa ketti einu sinni á ári.
Sérstaklega þarf að huga að hreinsun útikatta en þeir fara reglulega um og rannsaka svæði þar sem aðrir kettir viðhafast. Ormar eru algengastir í útiköttum, villi- og vergangsköttum og kettlingum. En inniketti er alltaf ráðlegt að hreinsa líka árlega.
Ormahreinsun er aldrei fyrirbyggjandi, ormalyf hreinsa út ef sníkjudýr eru til staðar. Endurtaka þarf hreinsun ef kötturinn skilar frá sér ormum eftir fyrstu hreinsun. Endurtekning er nauðsynleg til að hreinsa nýútklakin egg orma sem urðu eftir í fyrri hreinsun.
The comments are closed.