Hunda þarf að ormahreinsa reglulega, við fáum oft spurningar um af hverju þarf að ormahreinsa og hversu oft þarf að gera það? Hvernig veit ég hvort hundurinn minn sé með orma? Hvað á ég að gera ef ég held að hundurinn minn sé með orma? Eru ormar smitandi? Við settum saman stutta grein um ormahreinsun hunda.
Um tvær tegundir orma er um að ræða hér á landi í hundum: spóluormar eru nokkuð algengir í hundum, en bandormar finnast stundum.
Spóluormar eru einkum slæm fyrir hundinn sjálfan. Spóluormaegg skiljast út með saur og smitast beint milli hunda eða í gegnum millihýsla. Eggin klekjast út í meltingarvegi og lirfur komast í gegnum meltingarveginn og berast með blóðrás í önnur líffæri. Þær sem komast í lungu er hóstað upp í kok og komast þar niður í meltingarveginn þar sem þær verða kynþroska ormar og skilja út ný egg. Sumar komast í meltingarveg með blóðrásinni. Aðrar leggjast í dvala í líffærunum þar til hundurinn veikist eða tík verður hvolpafull. Þá fara lirfurnar aftur af stað með blóðrásinni og sýkja hvolpana í móðurkviði.
Almennt sýna einungis 25% af smituðum hundum einkenni sem geta verið uppköst, niðurgangur, hósti, uppþemba og almenn vanþrif. Þá getur verið hægt að greina orma í saur smitaðs hunds og er þá helst hægt að líkja því við að hann hafi borðað spaghettí skilað frá sér ómeltu. Ef þú sérð orma í saur hundsins þíns þarftu að fara til dýralæknis með hann og fá ormalyf til að hreinsa vágestinn út.
Við ormasmit er mikilvægt að ormahreinsa tvisvar til þrisvar sinnum með 12-14 daga millibili þar sem lyfin drepa ekki eggin.
Bandormar valda ekki miklum veikindum í hundinum en eru hættulegir mönnum og grasbítum. Þeir sem valda sullaveiki í fólki hefur verið útrýmt hér á landi en vöðvasullur finnst enn í sauðfé og berst þá frá hundum.
Regluleg ormahreinsun er mikilvæg fyrir heilbrigði hundsins og ekki síður mikilvæg fyrir nærumhverfi þeirra: önnur dýr og fólk. Gott er að ormahreinsa unda einu sinni á ári í þeirra árlegu heilbrigðisskoðun.
The comments are closed.