Við hjá Gæludýraklíníkinni fáum gjarnan spurningar um naggrísi, enda eru þeir skemmtileg gæludýr. Þessir litlu loðboltar eru forvitnir, félagslyndir og hafa margt að bjóða eigendum sínum. En hversu mikið veistu raunverulega um naggrísi? Hér fyrir neðan höfum við tekið saman tólf áhugaverðar staðreyndir um þessi krúttlegu nagdýr – allt frá uppruna þeirra til sérkennilegra eiginleika og þarfna. Við vonum að þessar upplýsingar hjálpi þér að kynnast naggrísum enn betur og sjá hvers vegna þeir eru frábær gæludýr!

  1. Naggrísir koma ekki frá landinu Guinea í Vestur-Afríku heldur upphaflega frá Suður-Ameríku úr fjallendinu í Andes héraði. Naggrísir finnast nú allstaðar í heiminum sem gæludýr en þeir urðu fyrst gæludýr fyrir um 7000 árum. Þeir eru heldur ekki grísir heldur nagdýr. 
  2. Naggrísir eru hópdýr og kjósa að vera í hópi með öðrum naggrísum. Oft er gott að vera með tvær eða fleiri kvk saman, en best er að vera með einn geldan kk og eina eða fleiri kvk með honum. Í Sviss er ólöglegt að selja bara einn naggrís og það þýðir að þú þarft alltaf að eiga tvo eða fleiri. 
  3. Naggrísir þurfa mikið pláss til að hlaupa um og eru plastbúrin sem fást í gæludýrabúðum oft ekki nógu stór fyrir þau. Þeir eru mjög viðkvæmir fyrir dragsúg, raka og gólfkulda. Búrið má því ekki vera á gólfinu vegna hættu á dragsúg og gólfhita. Talið er að minnsta kosti sé 140 cm x 70 cm búr fyrir tvo grísi. Miðað við tvo kk saman þarf að hafa 175 cm x 70 cm. Eftir því sem fleiri eru saman þá þarf stærra búr. 
  4. Naggrísir eru grænmetisætur og borða 80-90% hey og gras. Naggrísir geta ekki framleitt C-vítamín eins og mörg önnur dýr og því þurfa þeir að fá það úr fæðunni. Mikilvægt er að hafa C-vítamín bættann mat til að gefa þeim og grænmeti sem er með C-vítamíni í. Naggrísir ættu ekki að borða múslímat sem inniheldur fræ og hnetur. það getur farið illa í þá og við ákveðna stærð þá geta þeir kafnað. Naggrísir ættu hvorki að borða mjólkurvörur né kjötvörur. Einnig eru laukur, avókadó, iceberg-salat, súkkulaði og kartöflur skaðleg fyrir þá. Æskilegast er að gefa naggrísum einungis salat, gras eða kál sem er mjótt og kemst auðveldlega inn í munninn. Það auðveldar þeim að viðhalda tönnum í réttri lengd
  5. Naggrísir eru með tvískiptan skít. Naggrísir framleiða fyrst mjúkan og blautan saur, sem þeir borða aftur til að nýta næringarefnin betur. Eftir að hann fer í gegnum meltinguna í annað sinn verður hann harður og ílangur. Þeir geta kúkað allt að 200 sinnum á dag.

    Mynd þýdd frá PDSA

  6. Naggrísir eru með 20 tennur og þær vaxa alla ævi. Til þess að koma í veg fyrir ofvöxt þá þurfa naggrísir að borða stanslaust. Gróft hey getur hjálpað mikið að passa að tennurnar vaxa ekki of mikið. Öruggar gerðir af trjágreinum og pappakassar eru líka frábær leið til þess að hjálpa til við að koma í veg fyrir að tennurnar vaxi of mikið og verði of langar. 
  7. Naggrísir tjá sig mikið með hljóðum og gefa frá sér 12 mismunandi hljóð. Hljóðin nota þeir til að vara við mögulegum hættum, sýna yfirráð á ákveðnum svæðum, þegar þeir eru glaðir sem dæmi. Oft heyrast há tístuhljóð “wheeek-wheek” þegar þeir eru spenntir fyrir því að fá matinn sinn. Einnig eru ákveðnar spennings og gleðihreyfingar sem þeir gera sem kallast “popcorning” sem þeir sýna þegar þeir eru mjög glaðir.
  8. Naggrísir sjá í lit og eru með 340° sjón. Sjá einungis ekki það sem er beint fyrir framan nefið
  9. Naggrísir fæðast eftir 59-72 daga meðgöngu tilbúnir í lífið. Þeir eru með hár, opin augu og fullt sett af tönnum þegar þeir fæðast. Naggrísirnir eru líka tilbúnir að hlaupa um einungis mínútum eftir að fæðast. Naggrísa ungar geta borðað fasta fæðu eins og hey og kál 24 klst eftir fæðingu. Um 3 vikna gamlir eru karlkyns naggrísirnir teknir frá mömmunni því þeir eru kynþroska mjög ungir.
  10. Naggrísir eru með samtals 14 tær. Það eru fjórar tær á framfæti og 3 tær á afturfæti
  11. Meðalaldur naggrísa er 5-7 ár en elsti naggrísinn sem er vitað um varð 14 ára og 10 mánaða gamall en hann hét Snowball.
  12. Naggrísir eru flóttadýr þar sem þeir eru oft bráð rándýra, það er því í eðli þeirra að hlaupa undan og í felur þegar nálgast er þeirra svæði. Þeir geta vanist því að vera meðhöndlaðir af fólki en það krefst tíma og þolinmæði. Þeir hvíla sig meira en að sofa. Þeir þurfa alltaf að vera á verði fyrir rándýrum og því hvíla þeir sig með opin augun.